Kynning á Guðbjörgu, nýjasta meðlim Ice Fish Research.

Halló, ég heiti Guðbjörg og er nýr meðlimur Ice Fish Research. Ég er fædd og uppalin hér á Íslandi. Einmitt núna er ég að stunda doktorsnám í Líffræði við Háskóla Íslands þar sem ég er að rannsaka fjölbreytileika í bleikjum.
Bíddu það elska ekki allir náttúrufræði?
Ég ætlaði mér nú aldrei að vera líffræðingur. Sem krakki vildi ég vera kennari, iðjuþjálfi eða leikkona, sem mundi líka leikstýra bíómyndum og skrifa bækur í frítímanum mínum.
Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á náttúrunni og er mjög forvitin. Líffræði var alltaf uppáhalds fagið mitt, ég safnaði risaeðlubókum, veiddi pöddur og hornsíli og elskaði að horfa á náttúrulífsmyndir. Ég bara setti aldrei tvo og tvo saman að vilja vera vísindamaður.
Það var ekki fyrr en í menntaskóla þegar ég var að stressast yfir því að ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera eftir útskrift. Þá var mér bent á það að ég væri eina manneskjan í bekknum sem fannst líffræði skemmtileg. Þá setti ég loksins tvo og tvo saman. Í kjölfarið sótti ég um grunnnám í líffræði og hef ekki litið til baka síðan.

Rannsóknirnar mínar
Ég byrjaði að vinna með bleikjuna fyrir fimm árum þegar ég byrjaði meistaraverkefnið mitt. Þar var ég að skoða breytileika í lögun höfuðkúpu beina hjá bleikjuafbrigðunum í Þingvallavatni. Í gegnum það ferli vaknaði upp mikið af spurningum sem urðu síðan af doktorsverkefninu mínu.
Mig langaði að kafa dýpra og rannsaka nánar þann gífurlega fjölbreytileika sem finnst í bleikjum. Að sjá hvernig stofnar hafa aðlagað sig að umhverfinu sínu. Hverjir eru líkastir forfeðrunum og hverjir hafa breyst mest? Einmitt núna er ég að rannsaka fjölbreytileika milli (og innan) íslenskra bleikju afbrigða. Með áherslu á lögun höfuðkúpu beina og fjölda tanna. Ég ætti að vera meira og minna komin með öll gögnin nú er það bara að greina allt það.

Um mig
Þegar ég er ekki að vinna, hef ég mjög gaman af því að skapa allskonar list hvort sem það sé að mála, teikna, skrifa eða gera krosssaum (allt mjög góð núvitund). Einnig hef ég mjög gaman af fjallgöngum og almennri útivist. Síðan að lokum auðvita að eiga góðar stundir með vinum (sérstaklega ef góð borðspil eru með í för).
Ice Fish Research
Mér hefur alltaf fundist miðlun vísinda til almennings mjög mikilvæg. Þannig ég var svo stolt af Alessandra, Lieke, Michelle og Theresa þegar þær bjuggu til Ice Fish Research fyrir næstum ári síðan. Núna er ég svo þakklát og finnst það sannur heiður að þær voru tilbúnar að bjóða mér að vera hluti af þessu framtaki. Takk fyrir mig.
Meira um mig
Hver er uppáhalds fiskurinn þinn? Bleikja
Hvert er rannsóknarefnið þitt? Samhliða þróun, sveigjanleiki og þroskunarfræðilegur uppruni aðlagaðra höfuðbeina í bleikjum.
Hvar vinnur þú? Háskóli Íslands, Reykjavík, Ísland
Hver var innblásturinn fyrir rannsóknunum þínum? Í raun er ég bara mjög forvitin um þróunarferla, hvernig líffræðilegur fjölbreytileiki varð til og hvernig lífverur aðlaga sig að aðstæðum sínum. Síðan er bleikja bara einstaklega hentug tegund fyrir slíkar rannsóknir.
Hvað finnst þér skemmtilegast við það að vera vísindamaður? Þetta er nokkuð erfið spurning það er svo margt skemmtilegt við að vera vísindamaður. Ég er forvitin að eðlisfari og ég hef gaman að því að leysa flókin verkefni. Eftir alla vinnuna að safna saman öllum gögnum, mæla þau og gera alla útreikninga fær maður loksins svar við spurningunni sinn. Oftast er svarið samt ekki einu sinni það krassandi, en það er eitthvað svo skemmtilegt við þetta „eureka“ augnablik.
Hvernig myndir þú útskýra hvað vísindamaður er fyrir barni? Það er hægt að líta á vísindamenn eins og einskonar spæjara, sem eru að reyna að leysa leyndardóma alheimsins
Hvernig myndir þú útskýra rannsóknirnar þínar fyrir barni? Ég er að skoða höfuðkúpur hjá bleikjum og ber saman við aðrar bleikju sem lifa á öðrum svæðum og éta annan mat.